Kafli C - Ljós og dagmerki

Siglingareglur

20. regla
Gildissvið

a)  Fylgja skal reglum þessa kafla hvernig sem viðrar.


b)  Reglunum um siglingaljós skal fylgja frá sólarlagi til sólaruppkomu og má á þessum tíma engin önnur ljós hafa sem unnt er að rugla saman við hin lögboðnu siglingaljós og gera erfiðara að sjá ljósin, eða sem draga úr sérstökum einkennum þeirra, eða torvelda að halda dyggilegan útvörð á skipinu.


c)  Á skipum sem eru búin þeim ljósum sem mælt er fyrir um í þessum reglum, skal einnig hafa þau kveikt frá sólaruppkomu til sólarlags í takmörkuðu skyggni og þau má hafa uppi við allar aðrar aðstæður þegar það er álitið nauðsynlegt.


d)  Reglum um dagmerki skal fylgja að deginum.


e)  Siglingaljós og dagmerki sem tilgreind eru í reglunum skulu vera í samræmi við ákvæði í I. viðauka við þessar reglur.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Þegar siglingaljósin er kveikt að nóttu má ekki hafa önnur ljós sem hægt er að rugla saman við siglingaljósin eða gætu skyggt á þau.
Ljós í stýrishúsi minni báta er oft ruglað saman við skutljós, eða verða þess valdandi að hliðarljósin sjást mjög ílla .
Rauð eða græn gluggatjöld í uppljómuðu stýrishúsi geta verið ruglandi og virðst vera hliðarljósin.
Dagmerki á að nota frá sólarupprás til sólarlags. Öll dagmerki eru svört að lit.
Öll siglingaljós eiga að vera af viðurkenndri gerð.

 


21. regla

Skilgreiningar

a) „Sigluljós“ er hvítt ljós yfir mið-langskurðarfleti skips og varpar samfelldri birtu á 225° boga af sjóndeildarhringnum og skal þannig komið fyrir að það lýsi beint fram og til hliðar 22,5° aftur fyrir þvert á hvorri hlið skipsins.

 

b) „Hliðarljós“ er grænt ljós á stjórnborðshlið og rautt ljós á bakborðshlið og varpi hvort ljós samfelldri birtu á 112,5° boga af sjóndeildarhringnum og skal þannig komið fyrir að ljósið lýsi beint fram og til hliðar 22,5° aftur fyrir þvert á hvorri hlið, eftir því sem við á. Á skipi styttra en 20 m má hafa hliðarljósin í einu samsettu ljóskeri í miðlangskurðarfleti skipsins.



c) „Skutljós“ er hvítt ljós, komið fyrir eins nærri skut skipsins og við verður komið, og varpar samfelldri birtu yfir 135° boga af sjóndeildarhringnum þannig að ljósið lýsi beint aftur og 67,5° á hvora hlið skipsins.


d) „Dráttarljós“ er gult ljós sem lýsir eins og skutljósið sem skilgreint er í c-lið þessarar reglu.


e) „Hringljós“ er ljós sem varpar samfelldri birtu á 360° boga sjóndeildarhringsins.


f) „Leifturljós“ er ljós sem leiftrar með reglulegu millibili og með tíðni sem er 120 leiftur eða fleiri á hverri mínútu.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Viðurkenning, hlífar og staðsetning siglingaljósanna
Eigandi báts ber ábyrgð á því að siglingaljósin séu af viðurkenndri gerð og af réttri stærð fyrir bátinn.
Siglingaljósin eru ætluð ákveðinni bátsstærð og hljóta viðurkenningu sem slík .
Ákveðnar reglur gilda um siglingaljós og dagmerki og staðsetingu þeirra um borð í bátnum.
Viðurkennd siglingaljós eru merkt með séstöku merki erlendis, í Noregi eru t.d. tvennskonar merkingar. NSK og NK. NSK þýðir að eftirlitsaðili norsku siglingamálastofnunarinnar hefur viðurkennt ljósin. NK. Þýðir að ljósin eru viðurkennd af norrænum eftirlitsaðila. Þar að auki getur getur styrkleiki perunnar verið skráður á ljósið ásamt radíusi glersins að innanverðu, t.d. R40.
Skv. íslenskum reglum skulu vera til vara eftirtalin ljósker, sem eru óháð ljósavélum skipsins: hliðarljós, skutljós, akkerljós og tvö rauð ljós til að sýna að skipið sé stjórnvana. Undanþegin þessu eru fiskiskip minni en 50 brl. ennfremur fiskiskip 50-250 brl., hafi þau fleiri en einn rafal sem getur gefið orku til siglingaljósa. Á öllum skipum 8 m eða lengri en undir 250 brl. að stærð, skal ávalt vera til taks hvítt ljósker sem getur frá sér skæra birtu og er óháð ljósavélum skipsins.
Hlífar siglingaljósanna tryggja að ljósin lýsi yfir ákveðinn boga af  sjóndeildarhringnum. Hlífarnar eiga að vera svartmálaðar og mattar og staðsettar undir ljósunum og til hliðar við þau.



Samsett ljósker hefur einfalda,lóðrétta hlíf sem mýndar mjótt bil milli græna og rauða ljóssins. Siglingaljósin þurfa ekki að hafa hlífar.


 


Siglingaljósunum verður að koma þannig fyrir að ljósið endurkastist ekki frá þilfarinu, eða valdi valdi þeim vandræðum sem standa vörð í stýrishúsinu. Gæta verður þess að ymis búnaður á þilfari eða annars staðar skyggi ekki á ljósin. Það verður að reikna með að lóðrétt ljóshorn sé minnst 30°


 

Ef ljósið endurkastast frá þilfarinu getum við hindrað það með því að koma fyrir hlíf undir ljósinu en hún má ekki mjókka um nema 7°


 

Á vélbátum á að koma sigluljósinu, skutljósinu og samsetta ljóskerinu fyrir í langskurðarfleti bátsins. Þau eiga að lýsa lárétt þegar báturinn liggur eðlilega. Sigluljósið á að vera ofar og framar en hliðarljósin eða samsetta ljóskerið.
Hliðarljósin á að staðsetja neðar og aftar en sigluljósið á hliðum stýrishúsins eða á hliðum bátsins.


 

Skutljósið er staðsett aftast á bátnum, svo hátt að ekkert skyggi á það.
Ef utanborðsvél hindrar að skutljósið verði staðsett í langskurðarfleti bátsins þá má það vera til hliðar við vélina.



Rauða og græna samsetta ljóskerið á að setja upp á að setja upp í siglu neðan við sigluljósið. Það á að lýsa yfir 2x112,5° boga af sjóndeildarhringnum, þ.e. rautt á bakborða (112,5°) og grænt á stjórnborða (112,5°). Á seglbátum er þessu ljósi gjarnan komið fyrir fremst á stefninu. Á seglbátum er heimilt að nota samsett ljósker með hliðarljósum og skutljósi. Það skal staðsett þar sem það sést best. Masturstoppurinn er venjulega mjög heppilegur staður.

 

 

Dagmerki
Ákveðnar reglur gilda um stærð dagmerkjanna. Upplýsingar um það er að finna í viðauka við siglingareglunar.
Á skipum undir 20 metrum mega dagmerkin vera nokkru minni en á stærri skipum, en þau eiga að svara til stærðar skipsins. Bilið milli merkjanna má einnig vera styttra. Norræn samstarfsnefnd hefur lagt fram eftirfarandi tillögur um dagmerki, stærð og bil milli þeirra:


 

 

22. regla
Langdrægni ljósa

Ljós sem mælt er fyrir um að hafa uppi í þessum reglum skulu hafa þann ljósstyrk sem tilgreindur er í 8. hluta I. viðauka við þessar siglingareglur og skulu ljósin sjást þá lágmarksvegalengd sem hér segir:



 

a)  Á skipum 50 m að lengd eða lengri:

- sigluljós 6 sjómílur;
- hliðarljós 3 sjómílur;
-  skutljós 3 sjómílur;
- dráttarljós 3 sjómílur;
- hvítt, rautt, grænt eða gult hringljós 3 sjómílur.



b)  Á skipum 12 m að lengd eða lengri en styttri en 50 m:

- sigluljós 5 sjómílur; nema á skipum styttri en 20 m 3 sjómílur;
- hliðarljós 2 sjómílur;
- skutljós 2 sjómílur;
- dráttarljós 2 sjómílur;
- hvítt, rautt, grænt eða gult hringljós 2 sjómílur.


 

c)  Á skipum styttri en 12 m:

- sigluljós 2 sjómílur;
- hliðarljós 1 sjómílu;
- skutljós 2 sjómílur;
- dráttarljós 2 sjómílur;
- hvítt, rautt, grænt eða gult hringljós 2 sjómílur.



d)  Á lítt áberandi skipum að nokkru í kafi eða hlutum í drætti:

- hvítt hringljós 3 sjómílur.


23. regla

Vélskip sem eru laus

a) Vélskip sem er laust skal hafa uppi:

i) sigluljós frammá;

ii) annað sigluljós aftar og ofar en sigluljósið frammá, nema á skipi styttra en 50 m er ekki skylt að hafa uppi þetta ljós en má hafa það;

ii) hliðarljósin;

iv) skutljósið.
 

b) Loftpúðaskip í förum án særýmis skal, auk þeirra siglingaljósa sem kveðið er á um í a-lið þessarar reglu, hafa uppi gult hring-leifturljós.

c) Sviffar (WIG) skal, auk þeirra ljósa sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu, hafa uppi mjög skært, rautt hring-leifturljós þegar það lyftir sér til flugs, lendir og svífur nærri yfirborðinu.



d)

i) Vélskip styttra en 12 m má í stað ljósanna sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu hafa uppi hvítt hringljós og hliðarljósin;

ii) vélskip sem er styttra en 7 m og nær mest 7 sjómílna hámarkshraða á klukkustund má í stað þeirra ljósa sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu hafa uppi hvítt hringljós og skal ef unnt er einnig hafa uppi hliðarljósin.
iii) sigluljósinu eða hringljósinu á vélskipi sem er styttra en 12 m má, ef óframkvæmanlegt er með góðu móti að hafa ljósið í mið-langskurðarfletinum, koma fyrir utan við miðlangskurðarflöt skipsins, þó að því tilskildu að hliðarljósin
séu í einu samsettu ljóskeri sem skal haft í miðlangskurðarfleti skipsins eða eins nærri og unnt er í sama langskurðarfleti og sigluljósið eða hvíta hringljósið.



Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Hringljósið í grein c (i) má staðsetja neðar en 2,5 metra yfir dekki, en ekki lægra en 1 metra yfir hliðarljósunum til að tryggja að þau sjáist öll. 

Ef tvö sigluljós og sé annað þeirra lóðrétt upp af hinu, koma þau í stað ljósanna sem kveðið er á um í 1. eða 2. gr. a-liðar í 23. reglu.


24. regla
Skip sem draga eða ýta

a)  Vélskip skal þegar það dregur hafa uppi:

i) tvö sigluljós, og sé annað lóðrétt upp af hinu, í stað ljóssins sem mælt er fyrir um í i. eða ii. lið a-liðar í 23. reglu. Þegar lengd þess sem dregið er, mæld frá skut skipsins sem dregur til afturenda þess sem er dregið, verður yfir 200 metrar, á að
hafa þrjú sigluljós lóðrétt hvert upp af öðru;

ii) hliðarljósin;

iii) skutljósið;

iv) dráttarljósið, lóðrétt ofan við skutljósið;
v) tígullaga dagmerki þar sem best verður séð þegar lengd þess sem er dregið er yfir 200 m.


  

b)  Þegar skip sem ýtir og skip sem ýtt er áfram eru fasttengd í eina samsetta heild skal líta á þau sem eitt vélskip og skal hafa uppi ljósin sem mælt er fyrir um í 23. reglu.


c) Þegar vélskip ýtir einhverju áfram eða dregur sér við hlið, nema þegar um eina samsetta heild er að ræða, skal skipið hafa uppi þessi ljós:

i) tvö sigluljós, og sé annað lóðrétt upp af hinu, í stað ljóssins sem mælt er fyrir um í i. eða ii. lið a-liðar í 23. reglu;

ii) hliðarljósin;

iii) skutljósið.

 

d) Þegar a- eða c-liður þessarar reglu á við vélskip skal það einnig fara eftir ákvæðum í ii. lið a-liðar í 23. reglu.


e) Skip eða hlutur sem er dreginn og fellur ekki undir g-lið þessarar reglu skal hafa uppi:

i) hliðarljósin;

ii) skutljósið

iii) tígullaga dagmerki þar sem það sést best þegar lengd þess sem er dregið er yfir 200 m


f) Þegar eitt eða fleiri skip eru dregin við hlið dráttarskips eða ýtt í hóp skal hafa uppi ljós eins og um eitt skip væri að ræða:

i) skip sem ýtt er áfram, og er ekki hluti samsettrar heildar, skal hafa hliðarljósin frammá skipinu;

ii) skip sem er dregið við hlið dráttarskips skal hafa uppi skutljósið og frammá skipinu hliðarljósin.


g) Skip eða hlutur sem er lítt áberandi og að hluta til í kafi eða samsafn slíkra skipa eða hluta í drætti skal hafa uppi:

i) eitt hvítt hringljós á eða við framendann og annað hvítt hringljós á eða við afturendann ef breidd þess sem er dregið er undir 25 m, farmslöngur (dracones) þurfa þó ekki að hafa ljós á eða við framendann

ii) tvö hvít hringljós til viðbótar komið fyrir á eða rétt við þá staði þar sem breiddin er mest ef breidd þess sem er dregið er 25 m eða meiri;

iii) hvít hringljós til viðbótar á milli ljósanna sem mælt er fyrir um í i. og ii. lið og þannig fyrir komið að fjarlægðin milli ljósanna sé ekki meiri en 100 m ef lengd þess sem er dregið fer yfir 100 m;

iv) tígullaga dagmerki á eða við afturenda aftasta skipsins eða hlutarins sem er dreginn og ef lengd þess sem er dregið er meiri en 200 m skal hafa uppi annað tígullaga dagmerki þar sem það sést best og eins langt frammá og við verður komið.


h) Sé af gildri ástæðu óframkvæmanlegt með góðu móti á skipi eða hlut sem dreginn er, að hafa uppi þau ljós eða merki sem mælt er fyrir um í e- eða g-lið þessarar reglu, skal gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að lýsa upp skipið eða hlutinn sem dreginn er eða að minnsta kosti gefa til kynna að slíkt skip eða hlutur sé nærri.

i) Sé af gildri ástæðu óframkvæmanlegt með góðu móti á skipi sem að jafnaði er ekki notað sem dráttarskip, að hafa uppi ljósin sem mælt er fyrir um í a- eða c-lið þessarar reglu skal því ekki skylt að sýna þau ljós þegar það dregur annað skip sem er í nauðum statt eða þarf á annan hátt aðstoðar við. Allar tiltækar ráðstafanir skulu gerðar til að beina athygli að því hvernig samband og dráttartaug eru á milli skipsins sem dregur og þess sem er dregið eins og 36. regla heimilar og þá sérstaklega með því að lýsa upp dráttartaugina.


25. regla

Seglskip sem eru laus og skip undir árum

a)  Seglskip sem er laust skal hafa uppi:

i) hliðarljósin

ii) skutljósið.


b)  Seglskip styttra en 20 m má hafa ljósin sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu, í einu samsettu ljóskeri á eða nærri siglutoppi þar sem það sést best.



c)  Seglskip sem er laust má auk ljósanna sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu hafa uppi á eða nærri siglutoppi, þar sem þau sjást best, tvö hringljós, annað lóðrétt upp af hinu og skal efra ljósið vera rautt og neðra ljósið grænt, en hringljósin má ekki hafa uppi ásamt samsetta ljóskerinu sem heimilað er í b-lið þessarar reglu.



d)   

i) Seglskip styttra en 7 m skal, ef unnt er, hafa uppi ljósin sem mælt er fyrir um í a- eða b-lið þessarar reglu, en ef seglskipið hefur ekki uppi þessi ljós skal raflugt eða tendrað ljósker sem sýnir hvítt ljós vera tiltækt og skal því brugðið tímanlega upp

til þess að koma í veg fyrir árekstur.

ii) Skip undir árum má hafa uppi ljósin sem mælt er fyrir um í þessari reglu að seglskip hafi uppi, en ef þau ljós eru ekki höfð uppi skal raflugt eða tendrað ljósker sem sýnir hvítt ljós vera tiltækt og skal því brugðið tímanlega upp til þess að
koma í veg fyrir árekstur.



e) Á skipi undir seglum, sem einnig er vélknúið, skal frammá skipinu hafa uppi keilu þar sem hún sést best og vísi oddur keilunnar niður.



Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Samkvæmt siglingareglum eiga seglbretti að hafa siglingaljós. Þar sem það er mjög erfitt eða ómögulegt í framkvæmd, er í raun einungis hægt að nota seglbretti meðan bjart er af degi. Minni segl og árabátar, sem mega nota hvítt hringljós, skulu halda sig fjarri öðrum skipum.


26. regla
Fiskiskip

a)  Skip að fiskveiðum, hvort sem það er laust eða við akkeri, skal aðeins hafa uppi þau ljós og dagmerki sem mælt er fyrir um í þessari reglu.


b)  Skip að togveiðum, en með því er átt við skip sem dregur vörpu eða annað tæki til fiskveiða í gegnum sjóinn, skal hafa uppi:

i) tvö hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, og skal efra ljósið vera grænt og neðra ljósið hvítt, eða dagmerki sem er tvær keilur, önnur lóðrétt upp af hinni og snúi topparnir saman;

ii) sigluljós, aftar og ofar en græna hringljósið; á skipi styttra en 50 m er ekki skylt að hafa uppi þetta ljós en það má hafa;

iii) þegar skipið er á ferð skal það hafa uppi hliðarljós og skutljós auk þeirra ljósa sem mælt er fyrir um í þessum lið.


c)  Skip að fiskveiðum, annað en skip að togveiðum, skal hafa uppi:

i) tvö hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, og skal efra ljósið vera rautt og neðra ljósið hvítt, eða dagmerki sem er tvær keilur, önnur lóðrétt upp af hinni og snúi topparnir saman;

ii) þegar veiðarfæri í sjó nær lengra en 150 m í lárétta stefnu frá skipinu, hvítt hringljós eða keilu í þá átt sem veiðarfærið liggur og snúi toppur keilunnar upp; 

iii) þegar skipið er á ferð skal það hafa uppi hliðarljós og skutljós auk þeirra ljósa sem mælt er fyrir um í þessum lið.


d)  Viðbótarmerki sem lýst er í II. viðauka við þessar siglingareglur eiga við skip að fiskveiðum mjög nærri öðrum skipum að fiskveiðum.


e)  Þegar skip er ekki að fiskveiðum má það ekki hafa uppi ljósin eða dagmerkin sem mælt er fyrir um að sýna í þessari reglu heldur aðeins ljósin og dagmerkin sem mælt er fyrir um að jafnlöng skip hafi uppi.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Orðið, „togveigar“ táknar að veitt sé með veiðarfærum sem takmarka stjórnhæfni skipsins.
Skip að fiskveiðum á auk ljósa fyrir „skip að fiskveiðum“ að hafa hafa hliðarljósin uppi og skutljós þegar það er á ferð.


27. regla
Stjórnvana skip og skip með takmarkaða stjórnhæfni

a)  Stjórnvana skip skal hafa uppi:

i) tvö rauð hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, þar sem þau sjást best;

ii) tvær kúlur eða áþekk dagmerki, annað lóðrétt upp af hinu, þar sem þau sjást best;

iii) hliðarljósin og skutljósið þegar skipið er á ferð auk ljósanna sem mælt er fyrir um í þessum lið.


b)  Skip með takmarkaða stjórnhæfni, nema skip sem starfar að hreinsun tundurduflasvæða, skal hafa uppi:

i) þrjú hringljós, lóðrétt hvert upp af öðru þar sem þau sjást best. Efsta og neðsta ljósið skal vera rautt en miðljósið hvítt;
ii) sem dagmerki, þrjú merki lóðrétt hvert upp af öðru þar sem þau sjást best. Efsta og neðsta merkið á að vera kúla en miðmerkið tígullaga;
iii) sigluljósið eða -ljósin, hliðarljósin og skutljósið þegar það er á ferð, auk ljósanna sem mælt er fyrir um í i. lið;
iv) ljósið, ljósin eða dagmerkið sem mælt er fyrir um í 30. reglu þegar legið er við akkeri, auk ljósa eða dagmerkja sem mælt er fyrir um í i. og ii. lið.


c)  Vélskip sem dregur þannig að geta skipsins eða þess sem er dregið til að víkja frá stefnu sinni er verulega takmörkuð skal, auk ljósanna og dagmerkjanna sem mælt er fyrir um í a-lið 24. reglu, hafa uppi ljósin eða dagmerkin sem mælt er fyrir um í i. og ii. lið b-liðar þessarar reglu.


d)  Skip við dýpkun eða neðansjávarvinnu skal, þegar það er með takmarkaða stjórnhæfni, hafa uppi ljósin og dagmerkin sem mælt er fyrir um í i., ii. og iii. lið b-liðar þessarar reglu og þegar skipið mætir hindrun skal það auk þess hafa uppi:

i) tvö rauð hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, eða tvær kúlur, önnur lóðrétt upp af hinni, sem sýna á hvora hlið hindrunin er;

ii) tvö græn hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, eða tvö tígullaga merki, annað lóðrétt upp af hinu, sem sýna á hvora hlið önnur skip geta siglt framhjá;

iii) þegar legið er við akkeri, ljósin eða dagmerkin sem mælt er fyrir um í þessum lið í stað ljósanna eða dagmerkisins sem mælt er fyrir um í 30. reglu.


e)  Þegar stærð skips að köfunarstörfum veldur því að óframkvæmanlegt er með góðu móti að hafa uppi öll þau ljós og dagmerki sem kveðið er á um í d-lið þessarar reglu, skal það hafa uppi:

i) þrjú hringljós, lóðrétt hvert upp af öðru þar sem þau sjást best. Efsta og neðsta ljósið skal vera rautt en miðljósið hvítt;

ii) stíft spjald með nákvæmri mynd af alþjóðamerkjafánanum „A“ sem skal ekki vera lægra en 1 m á hæð. Þess skal gætt að það sjáist úr öllum áttum.


f)  Skip sem starfar að hreinsun tundurduflasvæða skal, auk ljósanna sem mælt er fyrir um í 23. reglu að vélskip hafi uppi, eða ljósanna eða dagmerkisins sem mælt er fyrir um í 30. reglu að skip sem liggja við akkeri hafi uppi, eftir því sem við á, hafa uppi þrjú græn hringljós eða þrjár kúlur. Eitt þessara ljósa eða dagmerkja skal vera á eða nálægt húni framsiglu og eitt á hvorum enda framrár. Ljósin eða dagmerkin merkja að hættulegt sé fyrir önnur skip að fara nær skipinu sem hreinsar tundurduflasvæði en

1000 m.


g)  Skipum styttri en 12 m, öðrum en þeim sem eru að köfunarstörfum, er ekki skylt að hafa uppi ljósin eða dagmerkin sem mælt er fyrir um í þessari reglu.



h)  Ljósin og dagmerkin sem mælt er fyrir um í þessari reglu eru ekki merki skipa í sjávarháska sem þarfnast aðstoðar. Neyðarmerkjum er lýst í IV. viðauka við þessar siglingareglur.


28. regla

Skip böguð vegna djúpristu

Skip sem er bagað vegna djúpristu má, auk ljósanna sem mælt er fyrir um í 23. reglu fyrir vélskip, hafa uppi, þar sem þau sjást best, þrjú rauð hringljós, lóðrétt hvert upp af öðru eða sívalning.



29. regla

Hafnsöguskip

a)  Skip sem gegnir hafnsöguerindum skal hafa uppi:

i) tvö hringljós á eða nærri siglutoppi, annað lóðrétt upp af hinu, og skal efra ljósið vera hvítt og neðra ljósið rautt;

ii) auk þess hliðarljósin og skutljósið þegar það er laust;

iii) ljósið, ljósin eða dagmerkið sem mælt er fyrir um í 30. reglu um skip sem liggja við akkeri, auk ljósanna sem mælt er fyrir um í i-lið þegar legið er við akkeri.


b)  Hafnsöguskip sem gegnir ekki hafnsöguerindum skal hafa uppi ljósin eða dagmerkin sem mælt er fyrir um að sams konar skip jafnlöng eigi að hafa uppi.

 

30. regla
Skip sem liggja við akkeri og skip sem standa á grunni

a) Skip sem liggur við akkeri skal þar sem best sést hafa uppi:

i) hvítt hringljós eða kúlu framan til á skipinu;

ii) hvítt hringljós á eða nærri skut og lægra en ljósið sem mælt er fyrir um í i-lið.


b)  Skip styttra en 50 m má í stað ljósanna sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu hafa uppi hvítt hringljós þar sem það sést best.


c)  Skip 100 m að lengd og lengra sem liggur við akkeri skal einnig nota tiltæk vinnuljós eða jafngild ljós til að lýsa upp þilför skipsins. Önnur skip sem liggja við akkeri má lýsa upp á sama hátt.


d)  Skip sem stendur á grunni skal hafa uppi þau ljós sem mælt er fyrir um að höfð séu uppi í a- og b-lið þessarar reglu og auk þess þar sem best sést:

i) tvö rauð hringljós, annað lóðrétt upp af hinu;
ii) þrjár kúlur, hver lóðrétt upp af annarri.

 

e)  Á skipi, styttra en 7 m, sem liggur við akkeri annars staðar en í eða nálægt þröngri siglingaleið eða ál, eða á akkerislegu, eða þar sem önnur skip sigla venjulega um, er ekki skylt að hafa uppi ljósin eða dagmerkið sem mælt er fyrir um í a- og b-lið þessarar reglu.


f)  Á skipi, styttra en 12 m, er ekki skylt að hafa uppi ljósin eða dagmerkin sem mælt er fyrir um í i- og ii-lið d-liðar þessarar reglu, þegar það stendur á grunni.


31. regla

Sjóflugvélar
Þegar óframkvæmanlegt er með góðu móti að hafa uppi ljósin og dagmerkin á sjóflugvél eða sviffari (WIG) með þeim einkennum eða þeirri staðsetningu sem lýst er í reglum þessa kafla skal farið hafa uppi ljós og dagmerki sem eru sem líkust hinum réttu einkennum og komið fyrir eins nærri réttri staðsetningu og við verður komið.

Öll réttindi áskilin © Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is