Öryggismál

Þegar lagt er úr höfn eða frá landi er vert að leggja ýmislegt um öryggi skips og skipshafnar á minnið, þá er líklegra að fari vel. „Veldur ekki sem vari“, segir gamalt orðatiltæki.

 

Báturinn er okkar öryggistæki, og ef það hendir að við verðum að yfirgefa bátinn, er okkur vandi á höndum. Skipstjórinn er ábyrgur fyrir því að skipið okkar sé eins öruggt og hugsast getur, en það má heldur aldrei gleymast að skipshöfnin er samábyrg.
 

Það er gott að venja sig á að fara eftirlitsferð um bátinn og finna öryggis- og björgunartækin um borð. Það getur komið sér vel á hættustund að hafa gert það. Við vitum aldrei hvenær röðin kemur að okkur. Verum ávallt viðbúin því versta — það góða skaðar ekki.
 

Vitum við hvar björgunarbeltin eru geymd? Og hvernig á að setja þau á sig. Til hvers eru ólarnar notaðar? Klofólin er ein þessara óla. Hún er nauðsynleg til að beltið haldist á sínum stað. Ef þú þarft að stökkva í sjó eða vatn með beltið á þér, og hefur ekki gengið rétt frá ólunum, getur beltið losnað og slegið þig undir hálsinn og brotið hann, en þá er dauðinn vís.


Flotgallar eru í sumum bátum. Ef slíkur galli er til staðar í þínum bát, æfðu þig þá í að fara í hann því að á hættustund er gott að kunna klæðast honum.

 

Gúmmíbáturinn er oftast staðsettur á þaki stýrishúss eða í skut. Það er gott að kunna á því skil hvernig á að nota gúmmíbátinn og hvar hann er staðsettur. Íslensk skip eru búin sjálfvirkum losunarbúnaði sem losar gúmmíbátinn á öruggan hátt á hættustundu, en búnaðurinn er viðurkenndur af Siglingastofnun Íslands.


Einn eða tveir björgunarhringir eru um borð en þeim er kastað til manna er falla útbyrðis. Við björgunarhringinn er lína sem nota má til að draga mann sem í sjónum er að bátnum.

Krókstjaki (haki) á að vera í öllum smábátum, en það getur oft komið sér vel að nota hann til að ná manni úr sjónum.
 

Á hverjum smábát er fastur stigi eða þrep til að auðvelda uppgöngu í bát úr sjó.


Björgvinsbelti er handhægt og gott björgunartæki sem nota má til að fleygja til manns sem fallið hefur útbyrðis. Það má einnig nota við að hífa mann upp í þyrlu. Björgvinsbelti er staðsett á öllum bryggjum hér á landi. það er oft betra að grípa til þess en að nota björgunarhring því nái maður að bregða því á sig er síður hætta á að það losni.

 

Þetta eru allt gott og blessað. Munum, að fara ávallt með gát. Vankunnátta er okkar versti óvinur. Látum það ekki henda okkur.

Gúmmíbátafesting

 

Gúmmíbáturinn er oftast staðsettur á þaki stýrishúss eða í skut. 

Opnun gúmmíbáts í sjó

 

Vitum við hvar björgunarbeltin eru geymd? Og hvernig á að setja þau á sig. Til hvers eru ólarnar notaðar?

 

Björgvinsbelti er handhægt og gott björgunartæki sem nota má til að fleygja til manns sem fallið hefur útbyrðis.

Öll réttindi áskilin © Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is