Jafnvægi 2

Hangandi þungi

Suspended Weight

Þyngdarmiðja hangandi þunga er sá punktur sem byrðin hangir í. Þess vegna hefur trollpoki sem lyft er úr sjó áhrif til hækkunar á þyngdarmiðju skipsins (G) þar sem þyngdarmiðja hins hangandi þunga er í bómuendanum. Ofangreindur þungi veldur einnig hallavægi sem getur við óhagstæð skilyrði hvolft skipinu.

 

 

ÁHRIF ÓHEFTS YFIRBORÐS
Free Surface Effect

Þegar skipi með fulla geyma er hallað hegðar vökvinn sér eins og fastur þungi. Þyngdarmiðja vökvans sem er þyngdarmiðja geymisins breytist ekki og hefur þess vegna engin áhrif á þyngdarmiðju skipsins (G) né málmiðjuhæðina (GM).

Þegar skipi með hálffulla geyma er hallað leitast yfirborð vökvans í geyminum við að halda láréttri stöðu sinni. Þyngdarmiðja vökvans flyst til eins og vökvinn sjálfur. Þetta samsvarar því að þyngdarmiðja skipsins (G) hækkar og málmiðjuhæðin (GM) minnkar og þar með stöðugleikinn.

Hálffullir geymar hafa neikvæð áhrif á málmiðjuhæð skipsins (GM). Með því að skipta geymi í tvo jafnstóra hluta með vatnsþéttu þili minnka áhrif óhefts yfirborðs vökvans á málmiðjuhæð skipsins (GM) um 75% miðað við þau áhrif sem óheft yfirborð hefur í óskiptum geymi.

Aðgát skal höfð þegar slagsíða er lagfærð með því að fylla á geyma. Tveir hálffullir geymar auka áhrif óhefts yfirborðs vökva. Ef halli skips stafar af óstöðugu jafnvægi (rambi) er ráðlegast við þess háttar aðstæður að fylla fyrst geyminn í þeirri hlið skipsins sem það hallar í og því næst geyminn í hinni hliðinni. Sjá einnig kaflann Ramb á bls. 6.

Ýmislegt fleira en hálffullir geymar geta valdið sömu áhrifum og óheft yfirborð vökva, t.d. þegar sjór safnast fyrir á þilfari. Til þess að sjór geti runnið hratt af skipinu verða að vera fullnægjandi austurop. Þau skulu ávallt vera opin og frjálst rennsli að þeim.
Sjór sem flæðir inn í skip eða á milli hólfa í skipi dregur úr stöðugleika þess.

Andveltigeymar hafa óheft yfirborð vökva og minnka því málmiðjuhæðina (GM). Andveltigeyma skal því alltaf tæma ef málmiðjuhæðin (GM) er lítil, t.d. við ísingu.
Notið ekki fleiri olíu- og vatnsgeyma í einu en nauösynlegt er. Óheft yfirborö vökva myndast ekki í geymum sem eru annaðhvort alveg fullir eða alveg tómir.
Fylgist vel með austri og dælið reglulega úr kjalsogi.

Öll réttindi áskilin © Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is