Réttiarmur

RÉTTIARMUR
Righting Lever

Þegar skipið hallast vegna utanaðkomandi krafta breytist staða þyngdarmiðjunnar (G) ekkert. Þyngdarkrafturinn virkar lóðrétt niður í gegnum þyngdarmiðjuna (G). Uppdrifsmiðjan (B), sem er alltaf rúmfræðileg miðja þess særýmis sem skipið ryður frá sér, hefur flust að B1. Uppdrifskrafturinn sem er jafnstór þyngdarkraftinum virkar lóðrétt upp í gegnum hina nýju uppdrifsmiðju (B1).

Lárétta fjarlægðin frá þyngdarmiðjunni (G) að lóðrétta uppdrifskraftinum frá Bl er mæld í metrum og er kölluðréttiarmur (GZ).

Af þessu leiðir að vægið, sem réttir skipið við er þyngdarkrafturinn sem virkar í þyngdarmiðjunni (G), margfaldaður með lengd réttiarmsins (GZ). Vægi þetta kallast RÉTTIVÆGI (Moment of Statical Stability).

Þyngdarmiðja skipsins (G) hefur greinileg áhrif á réttiarminn (GZ) og þar af leiðandi eiginleika skipsins til þess að rétta sig við.

Þeim mun neðar sem þyngdarmiðja skipsins (G) er þeim mun stærri verður réttiarmurinn (GZ).

Ef þyngdarmiðjan (G) er nálægt málmiðjunni (M) hefur skipið litla málmiðjuhæð (GM) og réttiarmurinn (GZ) verður einnig lítill. Þess vegna verður hæfni skipsins til þess að rétta sig við mun minni en í dæminu hér að framan.


Réttiarmsboglínur (GZ- boglínur)
GZ -  Curves

Réttiarmsboglínur (GZ- línur) sýna á myndrænan hátt hvernig réttiarmurinn (GZ) breytist þegar skipinu er hallað.
GZ-línur eru notaðar til að meta stöðugleika skipsins, en eftirfarandi þætti þarf m.a. að athuga:
(a) málmiðjuhæð (GM)
(b) hámarksstærð réttiarmsins (GZmax)
(c) endingu stöðugleikans (það hallahorn þegar skipinu hvolfir).
Útlit réttiarmsboglína, málmiðjuhæðin (GM) og stærð réttiarmsgilda (GZ), eru háð hleðslu skipsins og lögun þess. Í því sambandi eru fríborð og hlutfallið breidd á móti dýpt skipsins mikilvæg.

Hækkun á þyngdarmiðju (G) þýðir minni málmiðjuhæð (GM) og lægri réttiarmsgildi (GZ).

Ef hækkun á þyngdarmiðju (G) verður svo mikil að þyngdarmiðjan (G) liggur fyrir ofan málmiðjuna (M) myndast óstöðugt jafnvægi. Byrjunarstöðugleikinn (GM) verður neikvæður og skipið helst ekki á réttum kili. Annað hvort hvolfír því eða það „rambar", þ.e. skipið leggst með halla í annað hvort borðið. Sjá einnig kaflann Ramb á bls. 6.

Minni hleðsla eykur fríborð og réttiarmsgildin (GZ) stækka við aukinn halla. Ending stöðugleikans eykst, þ.e.a.s. skipið þolir mun meiri halla.
Mismunandi hönnun skipa leiðir til mismunandi stöðugleikagilda. Aukin breidd leiðir til þess að málmiðjuhæðin (GM) og réttiarmsgildin (GZ) stækka. Aftur á móti minnkar ending stöðugleikans og skipinu hvolfir við minna hallahorn.


 

 

Öll réttindi áskilin © Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is