Jafnvægi

MÁLMIÐJA

Metacentre
Lóðréttar línur dregnar frá uppdrifsmiðju við lítinn halla skips skerast í punkti sem kallast Málmiðja (M). Hægt er að hugsa sér málmiðjuna sem snúningspunkt fyrir skip, sem hallað er um lítið hallahorn.

Hæð málmiðju mælist í metrum frá viðmiðunarpunkti (K) og kallast því KM.

STÖÐUGT JAFNVÆGI
Equilibrium
Skip er í stöðugu jafnvægi ef það réttir sig við eftir að því hefur verið
hallað. Slíkt gerist aðeins þegar þyngdarmiðjan (G) liggur fyrir neðan málmiðjuna (M).

 

 

MÁLMIÐJUHÆÐ
Metacentric Height
Stöðugt skip á réttum kili er sagt að hafi jákvæða málmiðjuhæð (GM) þegar málmiðjan (M) er fyrir ofan þyngdarmiðjuna (G). Einnig er talað um að skipið hafi jákvætt GM eða jákvæðan byrjunarstöðugleika. Fjarlægðin milli G og M er ýmist kölluð málmiðjuhæð eða byrjunarstöðugleiki.

ÓSTÖÐUGT JAFNVÆGI
Unstable Equilibrium
Ef þyngdarmiðja skips (G) liggur fyrir ofan málmiðju (M) er sagt að skipið hafi neikvætt GM eða neikvæðan byrjunarstöðugleika. Þannig skip rambar, þ.e. hallast ávallt í annað hvort borðið og hætta er á að því hvolfi.
Sjá einnig kaflann Ramb á bls. 6.


STÍF OG MJÚK SKIP
Stiff and Tender Ships
Þegar þungi er settur um borð í skip flyst þyngdarmiðja skipsins (G) alltaf í átt að þyngdarmiðju þess þunga sem settur er um borð. 

Þungi sem komið er fyrir á þilfari veldur því að þyngdarmiðja skipsins (G) hækkar. Við það minnkar málmiðjuhæð skipsins (GM) og þar með stöðugleikinn. Skip með litla málmiðjuhæð hefur langan veltitíma og sagt er að skipið sé MJÚKT.+

Þungi sem komið er fyrir neðarlega í skipinu veldur því að þyngdarmiðja skipsins (G) lækkar. Við það stækkar málmiðjuhæð skipsins (GM) og þar með eykst stöðugleiki skipsins. Skip með mikla málmiðjuhæð hefur stuttan veltitíma og sagt er að skipið sé STÍFT. 

Miklum þunga, svo sem afla og veiðarfærum, ætti ekki að koma fyrir á þilfari, af því að þyngdarmiðja skipsins (G) hækkar og málmiðjuhæðin (GM) minnkar sem eykur aftur á móti líkurnar á að skipinu hvolfi. Stífu skipi er erfitt að halla og það hefur snöggar hreyfingar. Mun auðveldara er að halla mjúku skipi og það tekur skipið langan tíma að rétta sig við. Sá tími sem það tekur skipið að velta frá borði til borðs er tiltölulega langur. Þetta ástand er ekki æskilegt en það er hægt að lagfæra með því að lækka þyngdarmiðju skipsins (G). Sjá einnig kaflann Veltitilraun á bls. 27.

Öll réttindi áskilin © Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is