Kafli A - Almenn ákvæði
Siglingareglur
1.regla.
Gildissvið
a) Reglur þessar gilda um öll skip á úthafinu og á öllum leiðum sem eru tengdar því og færar eru hafskipum til siglinga.
b) Í þessum reglum skal ekkert vera því til fyrirstöðu að fylgt verði sérreglum sem hlutaðeigandi yfirvöld setja um skipalægi, hafnir, fljót, vötn eða vatnavegu innanlands sem tengdir eru úthafi og færir eru hafskipum til
siglinga. Þannig sérreglur skulu fylgja reglum þessum eins náið og auðið er.
c) Í þessum reglum skal ekkert vera því til fyrirstöðu að fylgt verði hverjum þeim sérstöku reglum sem einstakar ríkisstjórnir setja um frekari notkun legu- eða merkjaljósa, dag- eða hljóðmerkja á herskipum og skipum sem sigla í skipalest eða við frekari notkun legu- eða merkjaljósa eða dagmerkja á fiskiskipum sem veiða í flota. Þessi viðbótar legu- eða merkjaljós, dag- eða hljóðmerki, gefin með skipsflautu, sem eru ákveðin með sérreglum skulu, svo framarlega sem unnt er, vera þannig gerð að þau verði ekki tekin fyrir nokkurt þeirra ljósa, dag- eða hljóðmerkja sem heimiluð eru annars staðar í þessum siglingareglum.
d) Við beitingu þessara reglna getur Alþjóðasiglingamálastofnunin1 samþykkt ákvæði um aðskildar siglingaleiðir.
e) Ef skip af sérstakri gerð, eða skip sem ætlað er sérstakt hlutverk, getur ekki að áliti ríkisstjórnar að öllu leyti fylgt ákvæðum einhverra þessara reglna um fjölda og staðsetningu ljósa eða dagmerkja, langdrægni
eða ljósgeira eða lögun dagmerkja, sem og ákvæðum um fyrirkomulag og einkenni hljóðmerkjatækja, þá skal skipið fara eftir öðrum ákvæðum um fjölda og staðsetningu ljósa eða dagmerkja, langdrægni eða ljósgeira eða
lögun dagmerkja, sem og ákvæðum um fyrirkomulag og einkenni hljóðmerkjatækja sem að áliti hlutaðeigandi ríkisstjórnar fylgir þessum siglingareglum eins náið og kostur er hvað varðar þetta skip.
1 International Maritime Organization (IMO).
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Siglingareglunar eru alþjóðlegar. Þeim verða öll farartæki á sjó að fylgja, án tillits til stærðar, s.s. trillur, skemmtibátar, árabátar, seglbretti og sjóflugvélar. Siglingareglurnar ná einnig til umferðar á ám og vötnum inni í landi, þó með viðbótum og frávikum eftir því sem stjórnvöld á hverjum stað ákveða. Víða hafa hafnaryfirvöld sett sérreglur fyrir umferð á hafnarsvæðum, t.d. um hraðatakmarkanir. Siglingayfirvöld geta einnig sett sér reglur um siglingar um þröng sund og meðfram baðströndum o.fl.
2. regla
Ábyrgð
a) Ekkert í þessum reglum getur leyst nokkurt skip eða eiganda þess, skipstjóra eða áhöfn undan ábyrgð ef reglunum er ekki fylgt eða vanrækt er að gæta þeirrar varúðar sem almenn sjómennska krefst eða sérstakar aðstæður kunna að útheimta.
b) Þegar fara skal eftir þessum reglum og túlka þær, ber að taka fullt tillit til hvers konar hættu við siglingar, árekstrarhættu og allra sérstakra kringumstæðna, einkum þó takmarkaðrar hæfni hlutaðeigandi skipa til stjórntaka, sem kann að valda því að ekki
verður komist hjá að sniðganga þessar reglur til að forðast yfirvofandi hættu.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Þessi regla gerir alla sem eru um borð í skipinu ábyrga. Ábyrgðin er víðtækari, hún nær til eiganda skipsins, þó svo hann sé ekki um borð. Hafi eigandinn ekki gætt þess að slökkvibúnaður skipsins væri í lagi og eldur verður laus í skipinu er hægt að draga hann til ábyrgðar.
3. regla
Almennar skilgreiningar
Í þessum reglum gilda eftirfarandi skilgreiningar á orðum og hugtökum nema annað komi fram af samhengi textans:
a) „Skip“ merkir sérhvert fljótandi far, þar á meðal farkosti án særýmis, svifför og sjóflugvélar sem eru notaðar eða nota má til flutninga á sjó og vötnum.
b) „Vélskip“ merkir sérhvert skip sem knúið er vélarafli.
c) „Seglskip“ merkir sérhvert skip undir seglum, svo framarlega sem aflvél, sé skipið búið henni, er ekki í notkun.
d) „Skip að fiskveiðum“ merkir sérhvert skip að veiðum með netum, línu, togvörpu eða öðrum veiðarfærum sem draga úr stjórnhæfni skips en á ekki við skip að veiðum með toglínum eða veiðarfærum sem draga ekki úr stjórnhæfni.
e) „Sjóflugvél“ merkir hvert það loftfar sem er þannig búið að því má stjórna á sjó og vötnum.
f) „Stjórnvana skip“ merkir skip sem vegna óvenjulegra aðstæðna verður ekki stjórnað eða snúið eins og krafist er í þessum reglum og getur því ekki vikið fyrir öðru skipi.
g) „Skip með takmarkaða stjórnhæfni“ merkir skip sem hefur takmarkaða hæfni til stjórntaka eins og kveðið er á um í þessum reglum vegna þeirra sérstöku starfa sem skipið er bundið og getur því ekki vikið úr leið fyrir öðru skipi. Hugtakið „skip með takmarkaða stjórnhæfni“ nær til en takmarkast þó ekki við:
i) skip við lögn, viðgerð eða upptöku siglingamerkis, neðansjávarstrengs eða leiðslu;
ii) skip við dýpkun, sjómælingar eða neðansjávarvinnu;
iii) skip við móttöku eða losun eldsneytis, vista og farms skipa á milli eða við flutning fólks, vista eða farms meðan skipið er laust;
iv) skip við flugtak eða lendingu flugvéla um borð;
v) skip sem starfar að hreinsun tundurduflasvæða;
vi) skip sem dregur eitthvað við þær aðstæður að mjög erfitt er fyrir dráttarskipið og það sem er dregið að víkja frá stefnu sinni.
h) „Skip sem er bagað vegna djúpristu“ merkir vélskip sem á mjög erfitt með að víkja frá stefnu sinni vegna mikillar djúpristu miðað við dýpi og breidd á þeirri leið sem skipið siglir eftir.
i) „Laust“ er skip sem liggur hvorki við akkeri né landfestar né stendur á grunni.
j) „Lengd“ og „breidd“ skips merkir mestu lengd og mestu breidd þess.
k) Skip eru því aðeins talin „í sjónmáli“ að þau sjáist með berum augum hvert frá öðru.
l) „Takmarkað skyggni“ merkir hverjar þær aðstæður þegar dregur úr skyggni vegna þoku, dimmviðris, snjókomu, steypiskúra, sandstorma eða af öðrum svipuðum orsökum.
m) „Sviffar“ (WIG)2 merkir fjölnota far sem nýtir loftpúðaáhrif sem farið myndar í förum þegar það svífur rétt ofan við yfirborðið.
2 Wing-In-Ground Craft
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Seglbretti hefur segl og verður því að hlíta reglum sem seglskip. Vegna takmarkaðar stjórnhæfni seglbretta verða önnur farartæki þó að taka tillit tilþess. Seglbretti eiga að forðast umferðarsvæði eins og kostur er.
Ef veitt er á stöng eða veiðarfæri sem dregur ekki úr stjórnhæfni skipsins, er samkvæmt d-lið ekki unnt að líta á það sem „skip að fiskveiðum“.