Siglingareglur
32. regla
Skilgreiningar
a) „Flauta“ er sérhver hljóðgjafi sem getur gefið frá sér þau hljóð sem mælt er fyrir um að gefa og í samræmi við tækniforskriftirnar í III. viðauka við þessar siglingareglur.
b) „Stutt hljóð“ merkir hljóð sem varir í um það bil eina sekúndu.
c) „Langt hljóð“ merkir hljóð sem varir í fjórar til sex sekúndur.
33. regla
Tæki til hljóðmerkjagjafa
a) Skip 12 m að lengd eða lengra skal búið flautu, skip 20 m að lengd eða lengra skal auk flautunnar búið skipsklukku og skip 100 m að lengd eða lengra skal auk þess búið málmtrumbu enda sé tryggt að hljómur hennar og hljóð verði ekki tekið fyrir hringingu skipsklukkunnar. Skipsflautan, klukkan og málmtrumban eiga að vera í samræmi við tækniforskriftirnar í III. viðauka við þessar siglingareglur. Í stað klukkunnar eða málmtrumbunnar, eða í stað hvoru tveggja, má nota annað tæki sem gefur sömu hljóðeinkenni og þau hvort um sig að því tilskildu að ávallt sé unnt að gefa hin fyrirskipuðu hljóðmerki með handafli.
b) Ekki er skylt að búa skip styttra en 12 m þeim hljóðgjöfum sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu en ef skipið er ekki búið þessum tækjum skal það hafa einhvern annan útbúnað sem gefur frá sér fullnægjandi hljóðmerki.
34. regla
Merki um stjórntök og til viðvörunar
a) Þegar skip eru í sjónmáli skal vélskip sem er laust og þegar beitt er stjórntökum sem eru heimiluð eða krafist er í þessum reglum gefa þau til kynna með eftirfarandi hljóðmerkjum með flautunni:
- eitt stutt hljóð merkir: „Ég er að breyta stefnu minni til stjórnborða“;
- tvö stutt hljóð merkja: „Ég er að breyta stefnu minni til bakborða“;
- þrjú stutt hljóð merkja: „Ég læt vélina ganga aftur á bak“.
b) Á hverju skipi, má auk hljóðmerkja sem mælt er fyrir um í a-lið þessarar reglu, gefa ljósmerki sem eftir því sem við á eru endurtekin á meðan stjórntök fara fram:
i) Ljósmerki þessi skulu hafa svohljóðandi merkingu:
- einn blossi merkir: „Ég er að breyta stefnu minni til stjórnborða“;
- tveir blossar merkja: „Ég er að breyta stefnu minni til bakborða“;
- þrír blossar merkja: „Ég læt vélina ganga aftur á bak“.
ii) Lengd hvers blossa skal vera um það bil ein sekúnda; bilið milli blossanna skal einnig vera um það bil ein sekúnda og bil milli ljósmerkja, sem eru send hvert á eftir öðru, skal ekki vera styttra en tíu sekúndur;
iii) ef skipið er búið sérstöku ljóskeri til þessara merkjagjafa skal það vera hvítt hringljós, sem sést að minnsta kosti í 5 sjómílna fjarlægð, og skal það uppfylla ákvæðin í I. viðauka við þessar siglingareglur.
c) Þegar skip eru í sjónmáli á þröngri siglingaleið eða ál gilda þessar reglur:
i) skip sem ætlar að sigla fram úr öðru skipi skal í samræmi við i. lið e-liðar í 9. reglu gefa fyrirhugaða framúrsiglingu til kynna með eftirfarandi hljóðmerkjum, gefnum með flautunni:
- tvö löng hljóð með eftirfarandi stuttu hljóði merkja: „Ég ætla að sigla fram úr þér á stjórnborða“;
- tvö löng hljóð með eftirfarandi tveimur stuttum hljóðum merkja: „Ég ætla að sigla fram úr þér á bakborða“.
ii) Skip sem sigla á fram úr skal í samræmi við i. lið e-liðar í 9. reglu gefa til kynna að fallist sé á framúrsiglingu með eftirfarandi hljóðmerkjum með flautunni:
- eitt langt hljóð, eitt stutt, eitt langt og eitt stutt hljóð og skal gefa hljóðmerkin í þessari röð.
d) Þegar skip eru í sjónmáli og nálgast hvort annað en fyrirætlanir eða stjórntök annars hvors skipsins eru af einhverjum ástæðum óskiljanlegar stjórnendum hins, eða efast er um að hitt skipið geri fullnægjandi ráðstafanir til að forðast árekstur, skal skipið sem er í óvissu láta slíkar efasemdir í ljós þegar í stað með því að gefa hratt að minnsta kosti fimm stutt hljóð með flautunni. Auk hljóðmerkisins má sýna ljósmerki sem eru a.m.k. fimm stuttir blossar sem lýsa hratt hver á eftir öðrum.
e) Skip sem nálgast bugðu eða svæði á þröngri siglingaleið eða ál þar sem önnur skip geta verið í hvarfi vegna tálma sem ber á milli skal gefa eitt langt hljóð. Öll skip sem nálgast bugðuna hinum megin frá, eða eru bak við hvarfið sem ber á milli þar sem hljóðmerkið heyrist, skulu svara því með öðru löngu hljóði.
f) Ef skip er búið flautum sem eru í meira en 100 m fjarlægð frá hvor annarri skal aðeins nota eina flautu til að gefa hljóðmerki vegna stjórntaka og til viðvörunar.
35. regla
Hljóðmerki í takmörkuðu skyggni
Á eða nærri svæði þar sem skyggni er takmarkað skal, hvort sem er að nóttu eða degi, gefa hljóðmerki þau sem mælt er fyrir um í þessari reglu sem hér greinir:
a) Vélskip á ferð skal með 2ja mínútna millibili í mesta lagi gefa eitt langt hljóð.
b) Vélskip sem er laust en hefur stöðvast og er ferðlaust skal með 2ja mínútna millibili í mesta lagi gefa tvö löng hljóð, hvert á eftir öðru, með um það bil 2ja sekúndna þögn á milli þeirra.
c) Stjórnvana skip, skip með takmarkaða stjórnhæfni, skip bagað vegna djúpristu, seglskip, skip að fiskveiðum og skip sem dregur annað skip eða ýtir því skulu í stað þeirra hljóðmerkja sem mælt er fyrir um í b-lið þessarar reglu gefa með tveggja mínútna millibili í mesta lagi þrjú hljóð hvert á eftir öðru, þ.e. eitt langt hljóð og á eftir því tvö stutt hljóð.
d) Skip að fiskveiðum sem liggur við akkeri og skip með takmarkaða stjórnhæfni sem liggur við akkeri þegar það er að störfum, skulu í stað hljóðmerkjanna sem mælt er fyrir um í g-lið þessarar reglu gefa hljóðmerkið sem mælt er fyrir um í c-lið þessarar reglu.
e) Skip sem er dregið, eða ef fleiri en eitt skip eru dregin, þá skal síðasta skipið í lestinni, ef það er mannað, gefa með 2ja mínútna millibili í mesta lagi fjögur hljóð hvert á eftir öðru, þ.e. eitt langt hljóð og á eftir því þrjú stutt. Þegar því verður við komið skal gefa hljóðmerkið strax á eftir hljóðmerki dráttarskipsins.
f) Þegar skip sem ýtir og annað sem ýtt er áfram eru fasttengd í eina samsetta heild skal líta á þau sem vélskip og gefa skal hljóðmerkin sem mælt er fyrir um í a- eða b-lið þessarar reglu.
g) Skip sem liggur við akkeri skal með einnar mínútu millibili í mesta lagi hringja skipsklukkunni ótt og títt í um það bil 5 sekúndur. Skip 100 m að lengd eða lengra skal hringja klukkunni frammá skipinu og strax á eftir klukknahringingunni skal berja málmtrumbuna afturá skipinu ótt og títt í um það bil 5 sekúndur. Skip sem liggur við akkeri má auk þess gefa þrjú hljóð hvert á eftir öðru, þ.e. eitt stutt, eitt langt og eitt stutt hljóð til þess að vara skip sem nálgast við stað skipsins og hver hætta kunni að vera
á árekstri.
h) Skip sem stendur á grunni skal hringja klukkunni ótt og títt í um það bil 5 sekúndur og, ef þess er krafist, berja málmtrumbuna eins og mælt er fyrir um í g-lið þessarar reglu og auk þess skal slá þrjú aðgreind og greinileg högg á skipsklukkuna strax á undan og eftir hverri hringingu með klukkunni sem slegin er ótt og títt. Skip sem stendur á grunni má auk þess gefa önnur viðeigandi hljóðmerki með flautunni.
i) Skipi 12 m að lengd eða lengra en styttra en 20 m er ekki skylt að hringja skipsklukkunni eins og mælt er fyrir um í g- og h-lið þessarar reglu. Ef þessi hljóðmerki eru ekki gefin skal samt sem áður með 2ja mínútna millibili í mesta lagi gefa eitthvert annað greinilegt hljóðmerki.
j) Skipi styttra en 12 m er ekki skylt að gefa ofangreind hljóðmerki en ef það gefur ekki þessi hljóðmerki skal með 2ja mínútna millibili í mesta lagi gefa eitthvert annað greinilegt hljóðmerki.
k) Hafnsöguskip í hafnsöguerindum má auk hljóðmerkjanna sem mælt er fyrir um í a-, b- eða g-lið þessarar reglu gefa hljóðmerki til auðkenningar sem eru fjögur stutt hljóð.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Hlóðmerki eru gefin með flautu, klukku eða trumbu ( hljóðmerkjatáknin má einnig gefa með ljósi ).
Stutt hljóðmerki er: Hljóð sem varir í um það bil í eina sekúndu.
Langt hljóðmerki er: Hljóð sem varir í 4-6 sekúndur.
36. regla
Merki til að vekja á sér athygli
Ef nauðsynlegt er að vekja athygli annars skips má sérhvert skip sýna ljós eða gefa hljóðmerki sem verður ekki ruglað saman við neitt af þeim merkjum sem heimilað er að nota annars staðar í þessum reglum, eða það má beina geisla ljóskastara skipsins í átt að hættunni þannig að það trufli ekki önnur skip. Hvert eitt ljós, sem notað er til þess að vekja athygli annars skips, skal vera þannig að það verði ekki tekið fyrir neitt ljós sem notað er til aðstoðar við leiðsögu og siglingu skipa. Við beitingu þessarar
reglu skal forðast að nota skær blikk- eða hverfiljós svo sem glampaljós (e. strobe lights, da. blitzlys)
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Merki til að vekja athygli má ekki misnota. Þegar ljósmerki, sem reglurnar heimila, eru notuð skal þess gætt að beina ekki ljósgeislanum að stýrishúsi hins skipsins, serstaklega á þröngum leiðum.
37. regla
Neyðarmerki
Þegar skip er í sjávarháska og þarfnast aðstoðar skal nota eða sýna þau merki sem lýst er í IV. viðauka við þessar siglingareglur.
Skýringar
Hér eru nefnd nokkur af þeim neyðarmerkjum, sem talin eru upp í viðaukanum,og handhægt er að nota um borð í minni bátum.
1. Eftirfarandi merki gefa til kynna, hvort sem þau eru notuð saman eða hvert fyrir sig, að skip sé í sjávarháska.
a. Byssuskot eða annað hvellmerki hleypt af með hér um bil einnar mínútu millibili.
b. Notkun hvers konar þokumerkjatækis í sífellu.
c. Flugeldar eða sprengjur, sem varpa frá sér rauðum stjörnuljósum, og er þeim skotið einu í einu með stuttu millibili.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Til að gefa þessi merki getum við notað venjulega merkjabyssu eða merkjaskotrör. Það síðarnefnda er rör til að skjóta upp ljós-, reyk- og hvellmerkjum.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Merkið má gefa með flöggum, ljósi eða hljóði samkvæmt morsmerkjakerfinu.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Þetta merki má gefa með ljósi og hljóði, t.d. vasaljósi eða flautu.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Hengið logandi tunnu eða ílát utan á handrið ef hægt er. Takið tillit til vindáttar þannig að logarnir leiti ekki yfir bátinn.
Fallhlífarflugeldar eða handblys er sýna rautt ljós
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Fallhlífarflugeldurinn fer upp í um 350 metra hæð. Hann gefur frá sér rautt ljós í 30-40 sekúndur og sést við eðlilegar aðstæður úr 25 sjómílna fjarlægð.
Handblysið lýsir með skæru, rauðu ljósi í um það bil eina mínútu. Munið að halda því út fyrir borðstokkinn hlémegin til að forðast neistaflugið. Flugeldar og handblys eiga að vera af viðurkenndri gerð. Sýni dagsetning að ending flugelda og blysa sé útrunnin er ekki lengur á þau að treysta, og því ætti ætíð að endurnýja þau fyrir þann tíma. Þennan búnað skal geyma á öruggum stað svo að engin óviðkomandi eigi þar aðgang að.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Þetta merki logar á að giska í 2-4 mínútur.
Hylkinu er varpað fyrir borð hlémegin. Dagsetningin, sem skráð er á reyk- og hljóðmerkin, er framleiðsludagurinn. Ending merkjanna er 3 ár.
Hægar og endurteknar hreyfingar upp og niður með útréttum handleggjum.
Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Neyðarbauja er lítill radíóviti sem sendir út neyðarmerki á tíðni flugvéla 121,5 MHZ og 243 MHZ. Sendirinn fer í gang þegar hann kemur í vatn, en það er einnig hægt að að setja hann í gang handvirkt.