Veltitilraun
Málmiðjuhæðina (GM) er nokkurn veginn unnt að áætla með því að framkvæma veltiprófun á skipinu. Það er gert með því að mæla veltitíma skipsins.
Eins og fram hefur komið í kaflanum Stífog mjúk skip á bls. 10 hafa stíf skip mikla málmiðjuhæð (GM) og stuttan veltitíma. Hins vegar hafa mjúk skip litla málmiðjuhæð (GM) og langan veltitíma.
Veltitilraun er talsvert notuð aðferð til að áætla stöðugleika minni báta. Veltitilraun má gera hvenær sem er og geta sjómenn framkvæmt hana sjálfir.
Veltitilraun má framkvæma á eftirfarandi hátt:
- Landfestar eru hafðar slakar og báturinn laus frá bryggju.
- Bátnum er velt borð í borð.
- Þegar velta bátsins er orðin hæfileg (u.þ.b. 2-6° í hvort borð) er báturinn látinn velta frjálst.
- Heildartíminn, sem það tekur bátinn að velta u.þ.b. 4 heilar veltur er mældur. (Ein heil velta er á milli bakborða-stjórnborða-bakborða eða öfugt)
- Tími einnar veltu í sekúndum (T) er fundinn með því að deila fjölda veltna í heildartímann.
Ef veltutími (T) mældur í sekúndum, er styttri en breidd skipsins (B) mæld í metrum, er líklegt að stöðugleikinn sé fullnægjandi. Þetta miðast þó við að báturinn sé fullbúinn birgðum og veiðarfærum og hafi mikið fríborð.
Þegar birgðir minnka lengist veltutíminn (T) þar eð þyngdarmiðja skipsins (G) hækkar og málmiðjuhæðin (GM) minnkar. Við slíkar aðstæður er þó talið skynsamlegt að veltutíminn (T) sé ekki lengri en 1.2 x breidd bátsins (B).
Framangreind aðferð á ekki við um báta með smíðalagi sem dempar veltitíma, svo sem báta með stóra veltikili eða báta með óhefðbundnu smíðalagi, t.d. hraðfiskibáta.